Bacary Sagna, fyrrum leikmaður Arsenal og Manchester City í ensku úrvalsdeildinni, telur að Liverpool gæti misst af sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð, í fyrsta sinn síðan 2016.
Liverpool hefur ekki farið vel af stað í deildinni og er í áttunda sæti með níu stig eftir sex leiki.
„Ég held að Liverpool geti dottið úr topp fjórum á þessu tímabili byggt á fyrstu leikjunum. Það er einfaldlega vegna þess að liðið hefur tapað svo mörgum stigum nú þegar. Þeir eru nú þegar níu stigum á eftir toppliði Arsenal. Það er erfitt að brúa bilið þegar liðin fyrir ofan eru öll að vinna,“ segir Sagna.
„Ég held að Arsenal, Tottenham og Manchester City verði pottþétt í topp fjórum. Þá er bara eitt pláss eftir. Liverpool og Chelsea munu berjast um það.“ Athygli vekur að Sagna minnist ekki á Manchester United, en liðið er í fimmta sæti og hefur verið á góðu skriði undanfarið.
Sagna telur að Liverpool þurfi að brúa bilið í efstu liðin áður en HM skellur á. Það hefst 20. nóvember.
„Liverpool má ekki tapa stigum eins og er. Það er mjög stutt í hlé vegna HM. Liverpool vill ekki vera langt á eftir hinum liðunum þá. Það verður ekki auðvelt að koma sér aftur af stað eftir HM. Þeir verða að halda sér nokkuð nálægt hinum liðunum.“