Margrét Friðriksdóttir, ritstjóri Fréttin.is, ætlar í mál við Icelandair vegna brottvísunar úr flugvél þeirra eftir að hafa neitað að virða grímuskyldu.
Hún birtir svar flugfélagsins við bótakröfu hennar á Facebook. Hún segir Icelandair fara með ósannindi og vera með „allt niðrum sig í þessu máli og fer því málið fyrir dómstóla.“
„Ég lagði inn bótakröfu á Icelandair í dag en það tók ekki nema 3 klukkutíma að svara, og var mér neitað um endurgreiðslu en var líka með forfallatrygginu,“ segir hún.
Á vef Icelandair kemur fram að forfallagjald bætir ferðakostnað ef þú getur ekki ferðast vegna dauðsfalls, skyndilegra veikinda eða slyss hjá viðkomandi eða fjölskyldumeðlim, verulegs eignatjóns á heimili eða einkafyrirtæki sem gerir nærveru viðkomandi nauðsynlega og ef viðkomandi er með Covid-19.
„Þá barst mér lögregluskýrslan einnig í dag, þar sem kemur fram að ég hafi verið róleg og stangast því á allt sem að flugfélagið reynir að halda fram (ekki tekið áhættu?) og byggja þau sinn málatilbúnað á ósannindum og telja sig í rétti að brjóta með alvarlegum hætti á farþegum,“ segir hún og bætir við að hún hafi samþykkt að vera með grímu.
„Þess ber að geta að ég samþykkti að vera með grímu og þeir tækju handfarangurinn minn með dýrum og brothættum búnaði, þrátt fyrir þetta var mér vísað út fyrir framan fjölda vitna. Icelandair er með allt niðrum sig í þessu máli og fer því málið fyrir dómstóla.“
Föstudaginn síðastliðinn greindi Fréttablaðið frá því að starfsfólk Icelandair hafi óskað eftir aðstoðar lögreglu til að fylgja Margréti úr vélinni og til átaka hafi komið.
Margrét var á leið til Moskvu í vinnutengdum erindagjörðum með viðkomu í Þýskalandi – þar sem grímuskylda ríkir enn í öllum flugum til landsins.
Hún vísaði því alfarið á bug að hún hafi verið með læti og gagnrýndi vinnubrögð flugfélagsins.