Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag og hefur eftir Valgerði Snæland Jónsdóttur, formanni sóknarnefndarinnar, að nefndin sé einhuga um að vilja fá séra Gunnar aftur til starfa. „Það er mikið uppbyggingarstarf fyrir höndum, en þetta er bara verkefni sem við þurfum að vinna. Digraneskirkja á eftir að blómstra eins og hún hefur gert síðastliðin 30 ár undir stjórn séra Gunnars Sigurjónssonar sóknarprests,“ sagði hún.
Sigríður Sigurðardóttir, kirkjuvörður í Digraneskirkju, ber Valgerði ekki góða sögu og sakar hana um andlegt og líkamlegt ofbeldi á vinnustaðnum. Segir hún að Valgerður og önnur kona hafi meðal annars kreist hana á milli sín. „Ég stóð þarna, milli þessara kvenna, og þetta var svo ógeðslegt að ég get ekki lýst því. Mig langaði helst að brenna fötin mín,“ hefur Fréttablaðið eftir henni.
Þegar blaðamaður Fréttablaðsins spurði Valgerði út í þetta sleit hún símtalinu.