Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, staðfestir í samtali við Fréttablaðið að hafa átt í viðræðum og samtali við Heimi Hallgrímsson um að taka við íslenska karlalandsliðinu í sumar.
„Það er rétt að við Heimir töluðum saman í sumar. Ég ætla að öðru leyti ekki að fara út í það sem okkur fór á milli,“ segir Vanda í svari sínu við fyrirspurn Fréttablaðsins.
Hlaðvarpsþættirnir Þungavigtin og Dr. Football höfðu sagt frá viðræðunum sem áttu sér stað í sumar þegar Heimir var án starfs. Hann réði sig til starfa sem þjálfari Jamaíka á dögunum.
Svo langt hefur verið gengi í umræðunni að Heimir hafi samþykkt að taka við landsliðinu en að Vanda og KSÍ hafi bakkað út á endaum. Hafi verið ákveðið að styðja við Arnar Þór Viðarsson, þjálfara liðsins, frekar en að ráðast í breytingar.
Talsverð gagnrýni hefur beinst að Arnari í starfi en gengi lðsins hefur batnað undanfarna mánuði eftir erfiða tíma.
„Að mínu mati er Arnar Þór á réttri braut með liðið, það er stígandi í leikjunum og frammistöðunum, við sjáum það t.d. í þeirri staðreynd að liðið er taplaust í 6 leikjum, og tölfræðin sem kemur úr greiningu á leikjunum styður það. Einnig var liðsandinn og baráttan til mikillar fyrirmyndar í leiknum gegn Albaníu í gær,“ segir í svari Vöndu.
Heimir þjálfaði íslenska landsliðið í fótbolta frá 2011 til 2018 með frábærum árangri, þar sem liðið komst inn á Evrópumótið og Heimsmeistaramótið í fyrsta sinn.