Þann 14. október næstkomandi verður aðalmeðferð við Héraðsdóm Vesturlands í máli gegn 71 árs gömlum Borgnesingi sem sakaður er um ofbeldi. Um tvö meint tilvik er að ræða. Maðurinn er annars vegar sakaður um að hafa þann 18. desember árið 2020 ráðist að þáverandi eiginkonu sinni og „slegið hana ítrekað í báða handleggi, og með þessu ógnað lífi, heilsu og velferð hennar, með þeim afleiðingum að hún hlaut bólgu og roða í húð frá olnboga hægri handar og upp að öxl utanvert og eymsli niður í framhandlegg“ (segir orðrétt í ákæru). Þetta atvik átti sér stað í Borgarnesi.
Hins vegar er maðurinn sakaður um að hafa brotist inn á heimili konunnar í Hafnarfirði þann 31. ágúst árið 2021 og misþyrmt henni. Er því atviki lýst þannig í ákæru Lögreglustjórans á Vesturlandi:
„Húsbrot og brot í nánu sambandi, með því að hafa að kvöldi þriðjudagsins 31. ágúst 2021 ruðst í heimildarleysi inn í íbúð fyrrverandi eiginkonu sinnar xxxxx, kt. xxxxxxx, að xxxxxx í Hafnarfirði, veist að xxxxx, tekið í hana og farið með hana inn í svefnherbergi, sparkað í fætur hennar, slegið hana ítrekað í hægri öxl og í andlit, hótað henni lífláti og tekið af henni síma svo hún gæti ekki hringt til lögreglu, og með þessu ógnað lífi, heilsu og velferð hennar, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut mar ofarlega á vinstri öxl, mar á vinstri upphandlegg og blett á innanverðum handlegg, eymslablett á vinstri olnboga, bólgu á hægri úlnlið, bólgu ofarlega á herðablaði, eymsli undir hnéskel á hægra hné, eymsli í hnakka, kúlu á höfði, áverka á munni og nokkra bólgu á innanverðri neðri vör.“
Þess er krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Konan gerir síða miskabótakröfu að fjárhæð tvær milljónir króna.