Á mánudaginn var aðalmeðferð fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra í máli meindýraeyðisins Árna Loga Sigurbjörnssonar, sem ákærður er fyrir stórfellt vopnalagabrot. Gerðir voru upptækir yfir 200 munir á heimili Árna, skammbyssur, haglabyssur, rifflar og byssuskot. Vopnin sem fundust á heimili Árna eru skráð en í ákæru er tilgreint að ekki hafi verið gengið frá þeim með lögmætum hætti, þ.e. þau voru ekki öll geymd í læstum hirslum. Ennfremur var Árna gefið að sök að hafa haft í vörslu sinni vopn sem tilheyra öðrum án þess að hafa tilkynnt um móttöku skotvopna til viðgerða eða hafa skriflega lánsheimild frá eigendum skotvopnanna.
Árni, sem er rétt tæplega sjötugur að aldri, hefur starfað sem meindýraeyðir frá árinu 1979. Hann er þekktur byssusafnari og byssuviðgerðarmaður. Árni býr einn á sveitabæ í Öxafirði sem er í klukkustundar fjarlægð frá næstu byggð.
Í viðtali við DV segir Árni að málið tengist kæru sem hann hafi fengið á sig fyrir meint gróft kynferðis-, ofbeldis- og byrlunarbrot. Af því spratt húsleit þann 2. febrúar síðastliðinn en síðan var framkvæmd önnur húsleit þann 18. febrúar og lagt hald á skotvopnin og skotfærin.
„Það var kona sem með aðstoð sonar síns, sem er lögreglumaður á Akureyri, sakaði mig um að hafa byrlað henni ólyfjan, nauðgað henni og misþyrmt henni hrottalega.“ Árni staðhæfir að konan hafi spunnið upp sögu um þetta og gefin hafi verið út handtökuskipun á hann vegna kærunnar þann 1. febrúar. Hann hafi hins vegar ekki verið handtekinn fyrr en upp úr klukkan fjögur aðfaranótt 2. febrúar þar sem vitað var að hann myndi keyra fólk á þorrablót í Ásbyrgi um kvöldið en Árni er vinsæll þorrablótsbílstjóri þar sem hann drekkur ekki áfengi sjálfur.
„Ég vissi ekki um hvað þeir voru að tala um þegar ég var handtekinn. Þeir fara svo með mig heim í Öxarfjörð og gera húsleit. Sængurfötin mín voru send til Svíþjóðar. Rannsóknin leiddi í ljós að engin merki voru um að konan hefði verið heima hjá mér,“ segir Árni.
Árni segir að konan hafi fyrst sagst hafa verið í haldi hans dagana 15. til 18. janúar en það gat ekki staðist þar sem hann sjálfur var þá ekki heima. Segir Árni að lögregla hafi fengið konuna til að breyta dagsetningunum og segjast hafa verið á heimili hans dagana 20. – 22. janúar. En ekki stóðust þær dagsetningar betur:
„Þá daga lá ég á sjúkrahúsi á Akureyri. Ég hafði slasast og ég var í axlaraðgerð.“
Árni hyggst kæra konuna fyrir rangar sakargiftir og segir að þessu máli sé langt frá því lokið. Héraðssaksóknari felldi niður málið og verður Árni ekki ákærður.
„Þetta lögreglustióraembætti fyrir norðan er handónýtt,“ segir Árni og ber yfirvöldum mjög illa söguna í hans málum. Hann telur ákæru um vopnalagabrot einnig vera út í hött og segir hann að aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi hafi verið vandræðaleg.
„Ég hef verið byssusafnari og gert við byssur í marga áratugi. Þetta vita allir hér um slóðir,“ segir hann. Dómur fellur í málinu innan fjögurra vikna.