Gareth Southgate þjálfari enska landsliðsins segir að Kieran Trippier sé í dag betri leikmaður en Trent Alexander-Arnold. Það sé ástæða þess að Trent hafi ekki komist í hóp gegn Þýskalandi á mánudag.
Alexander-Arnold spilaði 0 mínútur í síðasta verkefni landsliðsins fyrir HM í Katar, hann var ónotaður varamaður gegn Ítalíu og var utan hóps gegn Þýskalandi.
Southgate hefur aldrei haldið upp á Trent og virðist ansi tæpt að hann komist í HM hóp Englands. Reece James hefur verið fyrsti kostur Southgate í hægri bakvörðinn og hann virðist svo treyst Trippier.
„Gegn Þýskalandi þá völdum við hópinn út frá því hvernig við stilltum upp byrjunarliðinu. Við þurftum Ben Chilwell sem kost í vinstri bakvörð og höfðum Trippier líka. Í dag er Trippier að spila betur en Trent,“ sagði Southgate.
Enska landsliðið hefur ekki verið sannfærandi undanfarna mánuði og er pressa á Southgate fyrir mótið í Katar.