Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu gerði í kvöld 1-1 jafntefli á útivelli gegn Albaníu í Þjóðadeild UEFA með hetjulegri baráttu eftir að hafa spilað nánast allan leikinn einum færri.
Guðlaugur Victor Pálsson átti virkilega góðan leik í vörn íslenska landsliðsins og lét finna fyrir sér.
,,Já þetta kallar maður liðsheild,“ sagði Guðlaugur Victor í viðtali við Viaplay eftir leik.
,,Við sýndum frábæran karakter eftir sjokk í fyrri hálfleik. Þeir lágu mikið á okkur en við komum sterkir út í síðari hálfleik. Við ræddum málin vel í hálfleik og munurinn milli hálfleika var eins og svart og hvítt.
Hann segir liðið hafa sýnt mikla baráttu. ,,Við sýndum frábæran karakter og við gáfumst aldrei upp frá því að Aron var rekinn út af. Við héldum áfram að pressa á þá. Þeir voru líka hættulegir á köflum en þetta var þannig leikur að ástríðan sem við sýndum skilaði sér að lokum.“
Hann er meðvitaður um stöðu sína sem einn af reynslumestu leikmönnum landsliðsins.
,,Fyrst og fremst þarf ég bara að standa mig og spila vel. Svo gera mitt besta í að hjálpa ungu strákunum. Þetta eru allt mjög góðir fótboltamenn og við erum með góða blöndu af ungum og reynslumiklum leikmönnum. Við ætlum okkur bara að halda áfram á þessari vegferð.“