Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu gerði í kvöld 1-1 jafntefli á útivelli gegn Albaníu í Þjóðadeild UEFA með hetjulegri baráttu eftir að hafa spilað nánast allan leikinn einum færri
Rúnar Alex Rúnarsson, markvörður íslenska landsliðsins sagði í viðtali eftir leikinn að honum liði eins og Ísland hefði unnið leikinn.
,,Þetta er í raun ótrúlegt, að við skildum hafa náð þessu eftir að hafa verið svona lengi einum færri. Þetta sýnir bara karakterinn í liðinu og hversu mikið við viljum gera þetta fyrir hvorn annan,“ sagði Rúnar í viðtali við Viaplay.
Albanir skoruðu virkilega gott mark í fyrri háfleik sem erfitt er að klína á Rúnar Alex.
,,Þetta hefði sennilega verið besta varslan á ferlinum hefði ég varið þetta. Þeir nýttu það vel í fyrri hálfleik að vera einum fleiri og þeir nýttu þetta færi vel.“
Rúnar Alex átti flottan leik í markinu og varði einkar vel í stöðunni 1-0 í fyrri hluta síðari hálfleiks.
,,Til þess er ég hérna. Að hjálpa liðinu eins mikið og ég get og það var ánægjulegt að ná að halda þessu í stöðunni 1-0 á þessum tímapunkti því annars hefði brekkan verið ansi brött.“