Tómas Ellert Tómasson, byggingarverkfræðingur, ritaði í gær grein um að dæmi séu þess að við gerð fasteignamats næsta árs hafi Þjóðskrá tekið fram fyrir hendur byggingarfulltrúa sveitarfélaga og skráð nýbyggingar á hærra matsstig en þær í raun eru. Með því sé verið að fara á svig við skipulags- og byggingarlög sem kveði skýrt á um að það sé hlutverk byggingarfulltrúa í sveitarfélögum að sjá um slíkar skráningar.
DV sendi í kjölfarið fyrirspurn á Húsnæði- og mannvirkjastofnun (HMS) sem hefur tekið fasteignamatinu frá Þjóðskrá. Framkvæmdastjóri HMS, Tryggvi Már Ingvarsson, sagði í svari sínu að grein Tómasar byggi á misskilningi en þar sé ekki gerður greinarmunur á byggingarstigi og matsstigi. Byggingarstig sé á forræði og ábyrgð sveitarfélaga og endurspegli stjórnsýslu en matsstig sé notað við gerð fasteignamats og lýsi raunverulegri stöðu fasteignar, óháð eftirliti byggingarfulltrúa.
Milli þessara tveggja stiga geti verið munur þó það gerist ekki oft.
Sjá einnig: Segir ásökun Tómasar byggða á misskilningi – „Misskilningi sem þarf að leiðrétta“
Tómas mætti í Bítið á Bylgjunni í morgun þar sem hann segir svör HMS ófullnægjandi. Þau svari ekki hvernig það megi vera að gripið sé fram fyrir hendur byggingarfulltrúa. Tómas útskýrði mál sitt nánar með því að byggingarfulltrúar og byggingarstjórar skrái mat sitt á fasteignum í byggingu í gagnagrunn HMS og lýsi þar á hvaða stigi byggingin er.
Tómas viti dæmi þess að við útreikning á fasteignamati sé svo eign metin lengra komin í byggingu, eða á hærra matsstigi, heldur en byggingarstjórar og byggingarfulltrúar hafi metið eignina. Ekki sé ljóst hvernig HMS fái það út að matsstig eigna sé hærra en byggingarstig en geti Tómas séð að það hafi verið sendur aðili á þeirra vegum til að meta eignirnar. Telur Tómas ljóst að HMS hafi tekið einhliða ákvörðun um að hækka matsstig nýbygginga um heilt matsstig umfram það sem byggingarfulltrúar hafi skráð.
Nefndi hann dæmi sem hann hafði fyrir framan sig á meðan hann ræddi við þáttastjórnendur en þá hafi aðili verið með hús í byggingu sem var skráð fokhelt og fasteignamat metið á 24 milljónir. Svo hafi tilkynning komið frá HMS um að fasteignamat hefði hækkað upp í 33 milljónir þar sem metið væri að eignin væri tilbúin til innréttingar, þó svo að enginn byggingarfulltrúi hafi skrifað upp á slíkt mat.
Tómas segir að svara þurfi á hvaða forsendum þetta sé gert, hvort einhver hafi komið og skoðað eignina og staðfest þetta hærra matsstig.
Því sé spurningu hans enn ósvarað: „Hvað olli því svo og í hvaða tilgangi Þjóðskrá tók fram fyrir hendur byggingafulltrúa landsins við skráningu matsstigs fasteigna við gerð fasteignamats fyrir árið 2023″