Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings Reykjavík, viðurkennir að Breiðablik sé líklega of langt á undan hans mönnum til að Víkingar geti náð þeim í úrslitakeppninni. Arnar er gestur í sjónvarpsþætti 433.is.
Breiðablik er á toppnum, átta stigum á undan Víkingi nú þegar deildinni hefur verið skipt upp í tvennt. Fimm leikir eru framundan hjá báðum liðum í úrslitakeppni efri hlutans.
„Ef ég á að vera heiðarlegur, já,“ svarar Arnar, spurður út í það hvort Breiðablik sé oft langt á undan Víkingi til að hans menn geti náð þeim.
„Það er erfitt að færa rök fyrir því að Blikarnir munu missa þetta niður. Þeir hafa verið það stöðugir í sumar.
Ég er með tvær frábærar reglu í fótbolta, besta liðið vinnur alltaf deildina og tvö lélegustu liðin falla. Þeir eru bara búnir að vera bestir í sumar.“
Hans menn hafa þó ekki gefið upp alla von. „Við gefumst samt ekkert upp, þetta er alveg hægt.“
Hér að neðan má sjá sjónvarpsþátt 433.is í heild, en hann er á dagskrá öll mánudagskvöld.