Sjónvarpsþáttur 433.is er snúinn aftur eftir sumarfrí. Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings Reykjavík, er fyrsti gestur. FH var til að mynda til umræðu í þættinum, en liðið mætir einmitt Víkingi í bikarúrslitaleik á laugardag.
FH hefur átt í miklum vandræðum í Bestu deildinni í sumar og eru í fallsæti nú þegar henni hefur verið skipt upp. Það hefur þó verið aðeins bjartara yfir í Hafnarfirðingum upp á síðkastið.
Arnar hefur miklar mætur á Eiði Smára Guðjohnsen, þjálfara FH og Sigurvini Ólafssyni, aðstoðarmanni hans.
„Þetta eru engir jólasveinar. Eiður er einn af okkar ástsælustu leikmönnum og var undir stjórn færustu þjálfara í heiminum. Þessir menn kunna eitthvað fyrir sér í faginu. Það er annar bragur á FH-liðinu. Þeir eru orðnir þéttari og eru ekki að leka eins mikið af mörkum.“
Arnar viðurkennir þó að honum finnist skrýtið að sjá stórt félag eins og FH í þessari stöðu.
„Þetta er óraunverulegt að mörgu leyti. Þú ert allt í einu kominn í þá stöðu að þú ert mikið að horfa aftur fyrir öxlina á þér. Þetta er óþægileg staða, alveg sama hversu góður þú ert í fótbolta.
Þetta er mjög flottur leikmannahópur, en svo spilar mikið inn í. Þessi hefð félagsins að vera alltaf á toppnum getur verið sligandi fyrir leikmenn.“
Arnar telur þó að gengi liðanna í deildinni skipti engu í bikarúrslitaleiknum.
„Þú getur ýtt deildinni til hliðar. Þetta er ný keppni og allt í einu tækifæri á að komast í Evrópu líka.“
Hér að neðan má sjá sjónvarpsþátt 433.is í heild, en hann er á dagskrá öll mánudagskvöld.