Það hreinlega lak kynþokkinn af Brendan Fraser á síðasta áratug síðustu aldar þegar að kvikmyndir sem skörtuðu honum í aðalhlutverki mokuðu inni fé.
Hvort sem hann flaggaði ,,sixpakkinu” í George of the Jungle eða barðist við múmíur í The Mummy myndunum, gátu bíógestir ekki fengið nóg af Brenda Fraser.
En svo virtist sem leikarinn hyrfi allt í einu af yfirborði jarðar og í fimmtán ár sást hvorki né heyrðist af Fraser. En nú hefur leikarinn knái komið aftur fram á sjónarsviðið, með öllu minna hár og höfði og heldur þéttari á að líta, en með þvílíkum látum að hann er orðaður við Óskarsverðlaun næsta árs.
Fáir vissu hvað varð til þess að Fraser svo að segja hvarf í öll þessi ár en viðtali við tímaritið GQ árið 2018 sagðist Fraser hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á Beverly Hills hótelinu árið 2003. Gerandinn var formaður Samtaka erlendra blaðamanna í Hollywood (Hollywood Foreign Press Association), Philp Berk, og segir Fraser atvikið hafa valdið honum slíku þunglyndi að hann dró sig alfarið út sviðsljósinu.
Fraser segir Berk hafa gripið um rass hans og hafi fingur Berk snert endaþarmssvæði hans. Í viðtalinu sagði leikarinn hafa fyllst mikilli vanlíðan og verið gráti næst við atvikið
Hann segir að hann hafi lengi kennt sjálfum sér um atvikið og hafi honum liðið afar illa. Leikarinn segist hafa fyllst svo miklu þunglyndi að hann hafi átt í erfiðleikum með að umgangast fólk, hvað þá að koma fram opinberlega.
Marga grunar einnig að Berk hafi látið setja hann á ,,svartan lista” þar sem var boð á Golden Globe verðlaunaathöfnina, sem haldin eru af samtökunum, hafi hætt að berast Fraser. Tilboð um hlutverk hættu að berast en í viðtali árið 2019 sagðist Fraser efast um að blaðamannasamtök hafi í raun það mikil áhrif í Hollywood.
Berk sendi Fraser handskrifaða afsökunarbeiðni en hefur ávallt neitað ásökum um áreitni og í bréfi til sem hann sendi til GQ segir Berk frásögn Fraser af því sem átti sér stað á hótelinu vera uppspuna.
Það bætti ekki á ástandið að Mummy myndirnar höfðu reynt mjög á líkama Fraser sem þurfti að ganga undir uppskurði á hnjám, raddböndum og baki eftir að hafa skaðast við töku. Árið 2008 gekk Fraser í gegnum skilnað við leikkonuna Afton Smith, sem hann hafði verið giftur í 10 ár og á þrjá syni með. Fimm árum síðar þurfti Fraser að leita á náðir dómstóla til að fá árlegt meðlag upp á 900 þúsund dollara lækkað þar sem hann kvaðst vera svo að segja gjaldþrota. Fraser missti á svipuðum tíma móður sína, sem hann var afar náinn.
Leikarinn leitaði huggunar í mat og bætti verulega á sig.
Það gladdi því gamla aðdáendur að sjá kappann snúa aftur á hvíta tjaldið í myndinni The Whale, sem frumsýnd verður í desember næstkomandi. Myndin fjallar um einmana enskukennara sem berst við matarfíkn og hefur einangrað sig en ákveður að reyna að laga samband sitt við táningsdóttur sína. Kvikmyndin var sýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum og stóðu áhorfendur upp og klöppuðu í hvoki meira né minna en sex mínútur að sýningu lokinni.
Fraser segist hafa grátið við viðtökurnar.
Fraser þurfti að vera í sérhönnðum búningum sem bættu á hann frá 22 og upp í 136 kíló. Hann þurfti einnig að sitja í förðunarstól í sex klukkutíma á dag til að ná útliti enskukennarans dapra.
Sjálfur hefur Fraser orðið fyrir aðkasti nettrölla vegna útlits síns en langtum fleiri hafa komið leikaranum til varnar og sagt hann vera líta út eins og hvern annan 53 ára gamlan mann.
Við megum eiga von á að sjá mun meira af kappanum á næstunni og er meðal annars vona á kvikmyndinni Killers of the Flower Moon á hvíta tjaldið þar sem leikarinn er í hópi ekki minni manna en Leonardo DiCaprio og Robert DeNiro.