Það hefur lítið gengið hjá enska karlalandsliðinu undanfarið. Um helgina féll liðið úr A-deild Þjóðadeildar UEFA.
Liðið fór í úrslitaleik Evrópumótsins fyrir rúmu ár síðan. Síðan þá hefur það hins vegar lítið getað.
Nokkur pressa hefur myndast á Gareth Southgate, þjálfara enska landsliðsins.
„Ég veit að þegar öllu er á botninn hvolft verð ég dæmdur á því sem gerist á HM,“ segir Southgate.
Hann er með samning út árið 2024. „Samningar þýða ekkert í fótbolta. Þjálfari getur átt þrjú, fjögur eða fimm ár eftir af samningi en ef úrslit nást ekki þarf að kveðja. Af hverju ætti þetta að vera eitthvað öðruvísi í mínu tilfelli? Ég er ekki svo hrokafullur að halda að samningurinn muni verja mig.“
Southgate hefur á tíma sínum sem landsliðsþjálfari komið Englandi í undanúrslit á HM og úrslit á EM.
„Saga er saga. Við erum dæmd á því sem gerist í næsta leik og á næsta móti,“ segir Gareth Southgate.