Arnar Þór Viðarsson, þjálfari A-landsliðs karla, er enn og aftur í umræðunni í kjölfar þess að í ljós kom að engir leikmenn úr liðinu færu yfir í U-21 árs landsliðið fyrir seinni leikinn gegn Tékklandi í umspilsleik um sæti á EM á þriðjudag.
Eftir sigur Albaníu á Ísrael á Ísland ekki lengur möguleika á að vinna riðil sinn í Þjóðadeildinni. Því héldu einhverjir að leikmenn sem eru í A-landsliðinu en eru gjaldgengir í U-21 árs liðið yrðu færðir yfir til að hjálpa yngra liðinu. Ísland er 2-1 undir eftir fyrri leikinn hér heima.
„Ég held að þetta sé óvinsælasti þjálfari Íslands frá upphafi í boltaíþróttum. Ég er búinn að fylgjast lengi með og ég held að þetta sé sá allra óvinsælasti sem við höfum átt,“ segir Hjörvar Hafliðason í hlaðvarpsþættinum Dr. Football.
Albert Brynjar Ingason bendir á að það hafi ekki hjálpað honum að losa sig við Lars Lagerback, Þorgrím Þráinsson og sjúkraþjálfarann Friðrik Ellert Jónsson úr teyminu í kringum landsliðið.
„Þjóðinni þótti rosalega vænt um alla sem komu að þessum stórmótum með landsliðinu. Hann notar ekki Lars, Þorgrím eða Frikka. Svo er árangurinn ekki upp á tíu og í viðtölum, hann sannfærir mann ekki að hann sé með þetta.“
Arnar Þór býr í Belgíu, þar sem hann spilaði og þjálfaði lengi. „Hann er rosalega langt frá hinum venjulega Íslendingi, hann er miklu meiri Belgi en Íslendingur,“ segir Hjörvar.