Wilfried Zaha, leikmaður Crystal Palace, hefur fest kaup á knattspyrnufélaginu Club D’Abengourou á Fílabeinsströndinni.
Hinn 29 ára gamli Zaha er landsliðsmaður Fílabeinsstrandarinnar. Hann fæddist í landinu en flutti til Englands fjögurra ára gamall.
Zaha spilaði fyrir yngri landslið Englands en valdi að leika fyrir Fílabeinsströndina árið 2017.
Club D’Abengourou spilar í fjórðu efstu deild á Fílabeinsströndinni en hefur mikinn metnað til að klifra upp deildakerfið í landinu.
Zaha er þessa stundina staddur í landsliðsverkefni með Fílabeinsströndinni. Liðið vann 2-1 sigur á Tógó á laugardag. Annað kvöld tekur liðið svo á móti Gíneu.