Klukkan 01.10 í nótt mældist hraði bifreiðar 164 km/klst þar sem henni var ekið eftir Kringlumýrarbraut en þar er leyfður hámarkshraði 80 km/klst. Ökumaðurinn stöðvaði aksturinn ekki um leið og lögreglan gaf honum stöðvunarmerki. Hann stöðvaði að lokum í Garðabæ. Hann er grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna, ítrekaðan akstur án ökuréttinda og skjalafals því röng skráningarnúmer voru á bifreiðinni. Ökumaðurinn var handtekinn og bifreiðin flutt á brott með dráttarbifreið.
Á áttunda tímanum í gærkvöldi var ekið á 10 ára stúlku þegar hún var að fara yfir gangbraut í Mosfellsbæ. Móðir stúlkunnar fór með hana á bráðadeild en ekki var tilkynnt strax um slysið til lögreglu. Vitni var að slysinu og er málið til rannsóknar. Ekki liggja fyrir upplýsingar um alvarleika áverka stúlkunnar.