Það er gömul saga og ný að fólk dekri við gæludýrin sín. Sumir hafa þó gengið öllu lengra en aðrir. Og séu peningar og völd í spilinu eru engin takmörk fyrir hversu langt er unnt að ganga.
Það er svo að segja ekkert gott um rómverska keisarann Caligula að segja enda var hann morðóður kynferðisglæpamaður sem hataði svo að segja alla. En það verður ekki af honum tekið að honum þótt vænt um hestinn sinn, Incitatus.
Calicula hafði Incitatus við hlið sér á meðan að hann snæddi og fékk hrossið hafra stráða gulldufti. Það var byggt sérstakt hesthús úr marmara, hálsól hans var úr dýrustu eðalsteinum og voru strangar reglur um hegðun í návist hestsins. Sagt er að Calicula hafi gert hestinn að konsúl í rómverska senatinu en það er sennilegast ekki rétt. Hann gerði hann samt að presti þótt Incitatus hafi sennlega ekki sinnt skyldum sínum sem slíkur.
Við höldum okkur á Ítalíu en undir gólfi Vatikansins er að finna fíl. Manuel, kóngur Portúgals, gaf Leo X páfa fjögurra ára gamlan hvítan fíl árið 1514 í von um að liðka fyrir Portúgal í alþjóðastjórnmálum og verslun.
Fíllinn fékk nafnið Hanno og elskaði páfinn fílinn sinn út af lífinu. Hanno fékk eigin íbúð í Páfagarði og dekraði Leo við dýrið á alla vegu. Því miður voru dagar Hanno hér á jörðu ekki langir því hann fékk of mikið af lyfi við hægðatregðu sem hafði hrjáði hann.
Páfi var óhuggandi og lét gera fjölda minnisvarða, meðal annars voru ekki minni listamenn en Raphael ráðnir í að minnast Hanno en þvi miður er verkið týnt í dag.
Það ganga margar sögur um keisarynjuna Jósefínu Bonaparte og flestar ekki fallegar. Hún mun hafa verið eyðslusöm, lauslát og meinilla við að fara í bað. Napóleón keisari dáði Jósefínu sína en hún dáð aftur á móti órangútanapann sinn, Rósu.
Jósefína átti reyndar veglegt dýrasafn þar sem meðal annars var að finna kengúrur, emú og svani, en Rósa var í sérstök uppáhaldi. Ólíkt hinum dýrunum bjó Rósa í höllinni hjá Jósefínu sem kom fram við hana eins og barn og klæddi hana í dýrustu blúndukjóla. Hún sat til borðs með keisaraynjunni á hverju kvöldi og átti eigin hnífapör úr skíragulli. Rósa svaf meira að segja í sama rúmi og Jósefína.
Hvað Napóleón fannst um að deila rúmi með apa er ekki vitað.
En Rósu leið aldrei vel í höllinni og drapst innan árs frá því að flytja til Jósefínu.
Fatahönnuðurinn Karl Lagerfield var goðsögn í tískuheiminum og þekktur fyrir alls kyns dynti og sérvisku. Ekki síst þegar að kötturinn hans, Choupette, átti í hlut. Lagerfield var með tvo snyrta, líffvörð, matreiðslumeistara og lækni á launaskrá, einvörðungu til að sinna Choupette.
Kisa var einnig með umboðsmann og þénaði vel á fyrirsætustörfum og má nefna að árið 2015 halaði Chopupette yfir fjórar milljónir dollara fyrir ,,leik” í auglýsingum á bílum og snyrtivörum.
Þegar að Lagerfield lést árið 2019 arfleiddi hann kisulóru að 270 þúsund dollurum enda lét hann margoft hafa eftir sé að væri það löglegt, hefði hann kvænst Choupette.
Vajiralongkorn, konungur Tælands, á púðluhundinn Fufu sem kóngsi skellti á foryngjatitli í tælenska flughernum. Í tilefni af því var haldin glæsileg athöfn og var Fufu klædd í sérsaumaðan einkennisbúning flughersins
Árið 2007 fór myndband í dreifingu á netinu. Á því má sjá þriðju eiginkonu konungsins hálfnakta syngja afmælissönginn fyrir Fufu og hjálpa voffa við að blása á kertin á afmæliskökunni. Fufu var langlíf, hún lést árið 2015, 17 ára að aldri.
Skipaði kóngur fjögurra daga þjóðarsorg og var beðið fyrir sál Fufu í öllum musterum landsins.
Margmillarðarmæringurinn Leona Helmsley ánafni hundi sínum, Trouble, hvorki meira né minna en tólf milljonir dollara. Einnig fylgdu nákvæm fyrirmæli um þarfir og umönnun Trouble og til að mynda hefur hvutti lífvörð og fara átta þúsund dollarar á ár, bara í að halda feldi Trouble vel snyrtum.