Húðflúrarinn góðkunni, Málfríður Sverrisdóttur, varð fyrir áfalli í gærmorgun er brotist var inn í bíl hennar að Selási í Árbæ og þaðan stolið miklum verðmætum.
„Bílinn var gjörsamlega straujaður, ekki rykkorn eftir í honum,“ segir Málfríður en úr bílnum var tekin barnakerra af sömu gerð og sést í mynd með fréttinni, mjög mikilvægir pappírar, tvö stór rúmteppi og margt fleira.
„Ég bið ykkur innilega kæru vinir að hjálpa mér að hafa uppi á dótinu okkar því þetta er stórtjón fyrir mig, einstæð móðir með lítið milli handanna,“ segir Málfríður, sem þáði með þökkum boð DV um að greina frá þjófnaðinum og auglýsa eftir þýfinu.
Allir sem gætu haft upplýsingar um málið eru beðnir um að senda Málfríði einkaskilaboð í gegnum Facebook en tengill inn á síðu hennar og færslu um málið er hér fyrir neðan.