Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ, ætlar ekki að snúa aftur til þeirra starfa að fæðingarorlofi sínu loknu.
„Það er ekkert leyndarmál að ég kom til starfa hjá ASÍ til að vinna með Drífu Snædal. Ég tel bæði rétt og eðlilegt að nýr forseti fái til sín framkvæmdastjóra sem hann treystir og á trúnað hjá. Á næstu vikum mun ég skila af mér og vera nýjum forseta og framkvæmdastjóra innan handar eftir þörfum, en síðan skilja leiðir,“ segir Halla á Facebooksíðu sinni.
Hún segist stolt af þeim málum sem hún hafi komið að hjá ASÍ, og hún hafi lagst á árarnar með Drífu að vinna að þeim málum sem hún hafði sett á oddinn, sem lutu meðal annars að baráttu gegn misskiptingu og ójöfnuði og glæpastarfsemi á vinnumarkaði, sem og baráttu fyrir húsnæði á viðráðanlegum kjörum.
Halla segir starfið hafa verið skemmtilegt og lærdómsríkt, og að innan raða samtakanna starfi mikið af öflugu fólki með mikla reynslu.
„ASÍ getur ekki verið öflugra en aðildarfélögin vilja hverju sinni.
Síðustu ár hafa einkennst af hatrammri valdabaráttu og niðurrifi, eins og komið hefur fram opinberlega. Vinnuskilyrðin hafa oft verið óbærileg. Starfsfólk ASÍ, þar á meðal ég, hefur verið dregið inn í opinbera umræðu þar sem það á erfitt með að svara fyrir sig. Að mínu mati hefur þetta dregið þrótt úr hreyfingunni, sem kemur niður á launafólki og almenningi á Íslandi,“ segir Halla.