Magnús Leópoldsson, fasteignasali og frístundabóndi, telur að enginn hafi neytt Erlu Bolladóttur til að ljúga upp á hann röngum sökum í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Segir hann að Erla ásamt Sævari Marínó Ciesielski og Kristáni Viðari Júlíussyni hafi með samanteknum ráðum ákveðið að ljúga upp á svokallaða Klúbbsmenn til að afvegaleiða rannsókn málsins.
Magnús steig fram í Bítinu á Bylgjunni í morgun og opnaði sig um sögu sína, en hann var hnepptur í rúmlega 100 daga gæsluvarðhald vegna framburðar Erlu Bolladóttur þar sem hún hafi sagt hann ásamt Valdimar Olsen og Einari Bollasyni hafa átt þátt í hvarfi Geirfinns Einarssonar.
Magnús greinir frá því að hann hafi klukkan sex að morgni við að yfir honum stóðu lögreglumenn sem dóttir hans hafði hleypt inn. Lögregla var komin til að handtaka hann og átti það eftir að taka hann töluverðan tíma að fá upplýsingar um hvað hann átti að hafa gert til að verðskulda handtöku.
Á daginn hafi síðar komið að bent hafi verið á hann sem sakborning í Guðmundar- og Geirfinnsmáli en Magnús var á þessum tíma framkvæmdastjóri skemmtistaðarins Klúbbsins.
Magnús átti eftir að vera í gæsluvarðhaldi einangraður í fjóra mánuði áður en lögregla áttaði sig á að hann ætti engan hlut í máli. Á þessum tíma hafi hann meðal annars verið ítrekað yfirheyrður og hart lagt að honum að játa á sig sakir til að ljúka mætti málinu.
Strax fyrstu nóttina hafi fangavörður heimsótt hann í klefann og „hann ráðlagði mér bara að játa þetta svo þetta væri nú búið. Það væri best fyrir mig og mína fjölskyldu.“
Hann hafi meðal annars verið samprófaður með Erlu Bolladóttur og telur það víst að framburður hennar hafi ekki verið þvingaður fram heldur að hún hafi lagt á ráðin um það fyrir fram að varpa sök á Magnús og fleiri til að afvegaleiða rannsókn lögreglu.
„Ég þekkti þá konu ekki neitt og hafði mér vitandi ekki séð hana áður,“ segir Magnús og bætir við „það var enginn að aðstoða hana við að segja þessa sögu. Þetta kom bara frá henni.“
Magnús segir að á þessum tíma hafi Erla verið frjáls ferða sinna og hafi ekki þurft að vera í gæsluvarðhaldi nema um nokkra daga skeið vegna fjársvikamáls sem hafði ekkert með mannshvarfið að gera.
Allar sögur Erlu um harðræði sem hún hafi verið beitt í haldi og brot sem hafi verið framin gegn henni hafi ekki átt við á þessum tíma – það hafi gerst síðar.
Magnús segir það þreytandi að nafn hans sé stöðugt rifjað upp í tengslum við málið og reynist það fjölskyldu hans einnig erfitt. Að hans mati voru það mistök að sýkna sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu og meiri mistök að greiða þeim bætur. Í raun ættu stjórnmálamenn ekkert að hafa afskipti af dómsmálum.
„Þetta er einhver svona múgsefjun sem á sér stað“
Sjálfur segir Magnús að hann hafi lært að lifa með þessu máli. Eftir að hann losnaði úr fangelsi reyndi hann snúa aftur til fyrri starfa og fór þetta „á hnefanum“. Þá hafi fólk vikið sér að honum með annað hvort vorkunn eða leiðindum og fór svo að hann flutti með fjölskyldu sína í sveitina, hélt þar kýr og ær og lét lítið fyrir sér fara.
Á meðan á varðhaldinu stóð hafi Magnús haft það eitt fyrir augum að lifa þetta af.
Árið 2019 þegar Guðmundar- og Geirfinnsmálið fór aftur í umræðuna í tengslum við að sýkna bæri sakborninga og greiða þeim bætur hafi Magnús, Einar og Valdimar farið að ræða saman og í kjölfarið hafið bréfasamskipti við stjórnmálamenn og nefndir til að lýsa sinni afstöðu til málsins. Þeir hafi fyrir það verið í litlu sambandi, en eftir 2019 verið í ágætu sambandi.
Meðal annars hafi Magnús fundað með Katrínu Jakobsdóttur og fór vel með þeim þó svo að Magnús segi að Katrín hafi á endanum ekkert tillit tekið til þess sem hann greindi henni frá á þeim fundi
„Einn daginn sér hún eftir þessu.“
Ríkið hafi nú greint mörg hundruð milljónir til fyrrverandi sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmáli sem hefðu betur farið í eitthvað annað.
Magnús óskar þess að fólk sem hefur sig mikið frammi í umræðunni kynni sér málin betur því oft sé rætt um þau að vanþekkingu. Málið sé flókið og annað hvort ættu menn að halda sig til hlés eða kynna sér málin áður en haldið er út í umræðuna.