Flestir kannast við FOMO sem stendur fyrir Fear of missing out. Um er að ræða kvíðatilfinningu sem hellist yfir fólk um að það sé að missa af einhverju skemmtilegu eða spennandi og er talið að samfélagsmiðlar hafi sérstaklega stuðlað að því að æ fleiri upplifa að slíkar tilfinningar hellist yfir sig.
En nú er nýtt atferli að færa sig upp á skaftið – JOMO eða Joy of missing out. Um er að ræða þá gleði og létti sem fólk upplifir þegar það hættir við einhver plön, jafnvel á síðustu stundu, og ákveða að gera alls ekki neitt í staðinn. Daily Mail greinir frá.
Hraðinn í samfélaginu sé orðinn svo mikill og dagskrá flestra svo þéttsetin að fólk upplifir stundum mikinn létti við að hætta við einhver plön, sem mögulega voru kvíðavænleg í ofanálag, og kjósa þess í stað að leggjast upp í sófa, borða ís og slaka bara á.