Það er rökrétt en felur einnig í sér ákveðna áhættu að mati Lars Johannsen, lektors í stjórnmálafræði við Árósaháskóla. Í samtali við TV2 sagði hann að eins og staðan sé núna sé þetta skiljanlegt en til lengri tíma litið geti þetta orðið til þess að Rússar verði undir Kína settir hvað varðar stöðu ríkjanna.
Í síðustu viku var tilkynnt að Rússar og Kínverjar hafi samið um kaup Kínverja á 50 milljörðum rúmmetra af gasi frá Rússlandi árlega.
Johannsen benti á að gas sé stór hluti af tekjum Rússa í erlendum gjaldmiðlum. Sala á orkugjöfum úr landi sé stór hluti af rússneskum efnahag og útflutningi. Nú geti Rússar ekki lengur treyst á hungur ESB-ríkja eftir orku því Vesturlönd ætli ekki að fara aftur í þá stöðu sem var fyrir innrás Rússa í Úkraínu. Jafnvel þótt stríðinu ljúki verði staðan erfið fyrir Rússland. Evrópa og restin af Vesturlöndum muni ekki byrja að kaupa jafn mikið af gas og áður því fólk vilji ekki lenda í sömu stöðu og áður hvað varðar að vera háð orku frá Rússlandi.
Rússar eiga í erfiðleikum með að losna við gas núna og því er að mati Johannsen eðlilegt að þeir semji við Kínverja. En Kínverjar séu stærri sigurvegari en Rússar hvað varðar þennan samning.
Þeir hafa sífellt meiri þörf fyrir orku og gas frá Rússlandi hjálpar þeim við að leysa úr þeirri þörf.
Sala á gasi til Kína mun skipta Rússa miklu máli en Johannsen sagði að salan geti samt verið „eiturpilla“ fyrir Rússland. Ekki liggi fyrir hver langtímaáhrif samningsins verði og ekki sé útilokað að Rússar verði háðir því að selja Kínverjum gas í staðinn fyrir að selja það til Evrópu.