Konurnar þrjár, Málfríður Þórðardóttir, Tinna Guðmundsdóttir og Hannesína Scheving, boðuðu til blaðamannafundar í gær til að skýra frá upplifun sinni og líðan síðustu mánuði. Á fundinum sögðu þær að Hjörleifur hefði margoft áreitt þær kynferðislega.
„Þetta er tóm lygi, þessar konur eru svikakvendi, en aftur á móti hef ég haft í flimtingum oftar en einu sinni að ég hafi aldrei tekið á konu nema undir sæng við eðlilegar aðstæður. En það er helber lygi að ég hafi beitt þær ofbeldi,“ sagði Hjörleifur í samtali við Fréttablaðið í gærkvöldi.
Á fundinum sögðu þær að enn frekari trúnaðarbrestur hefði orðið þegar þær ræddu samskiptin og afleiðingar þeirra við Jón og Brynjólf. Jón hefði öskrað og látið skap sitt bitna á húsgögnum.
Þær sögðu að Hjörleifur hefði margoft reynt að fá eina þeirra til að verja kvöldstund með honum. Þegar hún hafi bent honum á að hún eigi lítið barn hafi hann sagt að hún gæti tekið barnið með.