Lazio á Ítalíu hefur staðfest það að félagið muni endurborga þeim 225 stuðningsmönnum sem eltu liðið í vikunni.
Lazio spilaði við Midtjylland í Evrópudeildinni á fimmtudag og tapaði mjög illa, 5-1.
Margir bjuggust við sigri ítalska liðsins í þessari viðureign en Midtjylland hélt þess í stað veislu á eigin hemavelli og vann öruggan sigur.
225 stuðningsmenn Lazio voru mættir til Danmerkur til að sjá leikinn og fá þeir endurborgað frá félaginu.
Lazio viðurkennir þar með að tapið hafi verið nokkuð vandræðalegt en þetta var stærsta tap liðsins í yfir 20 ár í Evrópu.
Maurizio Sarri, stjóri Lazio, var bálreiður eftir lokaflautið og sagði hans menn vera hrokafulla í fyrri hálfleik.