Harry Winks er að upplifa martraðarbyrjun hjá liði Sampdoria eftir að hafa gengið í raðir liðsins í sumar.
Winks var lánaður til Sampdoria frá Tottenham í ágúst en hefur hingað til aðeins náð að mæta á eina æfingu.
Miðjumaðurinn er að glíma við ökklameiðsli þessa stundina en Marco Giampaolo, stjóri Sampdoria, hefur tjáð sig um stöðuna.
Hann veit ekki hvenær Winks getur stigið á völlinn með Sampdoria en það er væntanlega dágóður tími í það miðað við æfingartímann.
,,Síðan hann kom frá Tottenham þá hefur hann aðeins tekið þátt í einni æfingu og ekki meira en það,“ sagði Giampaolo.
,,Ég vona innilega að hann geti snúið til baka bráðlega. Ég veit ekki hvenær hann verður nothæfur.“