„Við verðum samt að standa undir nafni sem hermenn Óðins og vera ekki hræddir við fjölmiðla. Það þarf fólk sem þorir til að berjast við illu öflin.“
Fjögurhundruð og átta Íslendingar hafa líkað við Facebook-síðu Hermanna Óðins á Íslandi. Samtökin spruttu upp í Finnlandi en tilgangur þeirra er að verjast innrás íslam til Evrópu. Yfirskrift íslenska hópsins er: „Við munum ekki sitja heima meðan Íslam nauðgar konum okkar og samfélagi.“ Einnig er deilt myndum á síðunni þar sem víkingar eru sagðist berjast gegn múslimum.
Forsvarsmenn íslensku síðunnar neita að koma fram opinberlega, enn sem komið er. „Þvi miður er ekki kominn tími á að ræða opinberlega við blaðamenn. Við vitum hverskonar umfjöllun þið sækist eftir,“ svaraði einn forsprakki hópsins í vikunni þegar blaðamaður DV hafði samband. Hann vantreysti blaðamanni mjög en sagði að áhuginn virtist vera þónokkur því að „hellingur“ af skilaboðum bærist á hverjum degi frá fólki sem segðist styðja Hermenn Óðins en væri hrætt við að opinbera það.
Það eru hinsvegar ekki allir feimnir við að opinbera stuðning sinn við Hermenn Óðins. Tónlistarmaðurinn Gylfi Ægisson skrifar stutta færslu á síðuna þar sem hann segist ekki vilja fela neitt og deilir með hópnum mynd þar sem hann lýsir yfir stuðningi við málstaðinn. Forsprakki síðunnar lýsir yfir ánægju sinni með gjörninginn og þá svarar Gylfi: „Takk fyrir það! Við verðum samt að standa undir nafni sem hermenn Óðins og vera ekki hræddir við fjölmiðla. Það þarf fólk sem þorir til að berjast við illu öflin.“