Daily Star segir að fólkið segist hafa verið neytt til að stunda kynlíf með ættingjum sínum til að halda blóði sínu „hreinu“ ef til heimsendis kæmi.
Fólkið hefur höfðað mál á hendur Kingston Group, sem er einnig þekkt sem the Order. Segist það hafa verið neytt í hjónaband á barnsaldri.
The Order, sem er fjölkvænishópur, er valdamikill hópur sem er staðsettur í Utah. Segir fólkið að þeim hafi verið nauðgað og það neytt til vinnu á barnsaldri.
Leiðtogi hópsins, Paul Eldon Kingston, og 21 til viðbótar eru sakaðir um gróf brot. Þar á meðal að hafa selt aðgang að líkama stúlknanna og kvennanna, kynferðisofbeldi og barnaníð. Einnig eru nokkrir sakaðir um að hafa nauðgað unglingspilti.
„Stúlkum í the Order er innrætt frá fæðingu að aðalhlutverk þeirra sé að vera hlýðnar, undirgefnar eiginkonur og ala eins mörg börn og hægt er,“ segir í stefnunni.
Daily Star segir að fram hafi komið að the Order stefni að því að viðhalda „hreinu Kingston blóði“ með því að skipuleggja hjónabönd náskyldra aðila.
Hópurinn er sagður fyrirlíta sambönd fólks þar sem báðir aðilar eru ekki hvítir og trúa því að aðeins þeir sem eru með hreint blóð muni lifa heimsendi af.