Eins og staðan er núna þá getur úkraínski herinn enn veitt sveitum sínum á jörðu niðri stuðning úr lofti, bæði með herþotum og þyrlum. Þetta hefur komið berlega í ljós í sókn hersins í Kherson en þar hófu Úkraínumenn langa boðaða gagnsókn fyrir hálfum mánuði. En eins og hefur komið í ljós um helgina þá var sú sókn aðallega hugsuð sem blekkingaraðgerð til að fá Rússa til að flytja hermenn frá Kharkiv til Kherson. Síðan gerðu Úkraínumenn skyndisókn í Kharkiv sem hefur gengið vel.
Karsten Marrup, majór og yfirmaður loftvarnamiðstöðvar danska hersins, sagði í samtali við Jótlandspóstinn að Rússar hafi misst af tækifærinu til að tryggja sér yfirráð í lofti í Úkraínu. Úkraínumenn geti veitt hersveitum sínum í Kherson stuðning úr lofti og meira að segja hinir hægfleygu Bayraktardrónar virðist aftur gegna hlutverki ef miða má við myndbönd frá úkraínska hernum.
Hann sagði að ekki sé annað að sjá en Úkraínumönnum gangi vel að halda loftvörnum Rússa í Kherson niðri og geti um leið veitt hersveitum sínum stuðning úr lofti í sókn þeirra. Þetta sé aðeins hægt af því að hvorugur stríðsaðilinn hafi tryggt sér yfirráð í lofti.
„Ef maður horfir á síðustu sex mánuði stríðsins, sem hefur eiginlega staðið síðan 2014, þá virðist sem Rússar hafi á pappírunum mikla getu sem er hægt að nota til margs. En þeir eru bara ekki færir um að framkvæma flóknar aðgerðir. Þeir geta flogið tveimur herþotum hlið við hlið, eins og þeir gera á æfingum, en að nýta getuna til flókinna aðgerða í lofti virðast þeir ekki færir um. Það er að minnsta kosti ekkert sem bendir til að þeir hafi gert það,“ sagði Marrup.
Hann sagði einnig að vandræði Rússar í loftinu séu enn meiri vegna þess að þeir eigi í erfiðleikum með loftvarnir sínar. Bent hafi verið á að þeir ráði yfir ratsjárkerfum, sem drífa langt, rafrænum ruglurum og fleiri tækjum. Ef stjórnendur þessara tækja geti ekki starfað saman þá sé kerfið ekki eins gott að það lítur út fyrir að vera á pappírunum. Margar myndir hafi birst frá Úkraínu og Sýrlandi þar sem sést þegar rússnesk Pantsir-loftvarnarkerfi hafa orðið fyrir árásum úr lofti, þrátt fyrir að þau eigi að geta varið sig sjálf. Ef kerfin sé svo flókin að það sé ekki hægt að stjórna þeim þá sé það ekki gott fyrir Rússa. Þetta sé enn eitt atriðið sem sýni að þeir séu ekki eins góðir og talið var.
En það er ekki bara getuleysi Rússar sem veldur því að Úkraínumenn hafa ekki tapað slagnum um yfirráð í lofti. Þeir hafa fengið, og fá enn, mikið af vestrænum vopnum, til dæmis loftvarnarkerfi. Þeir hafa einnig fengið háþróuð flugskeyti af HARM gerð frá Bandaríkjunum. Þau geta eytt ratsjárkerfum sem eru tengd við rússnesk loftvarnarkerfi. Úkraínumönnum hefur tekist að koma þessum flugskeytum fyrir í MIG-29 flugvélunum sínum og hugsanlega í MIG-27 orustuþotum.
Einnig geta upplýsingar, sem Bandaríkjamenn hafa aflað, hafa komið Úkraínumönnum að gagni. Marrup sagði hugsanlegt að Bandaríkjamenn hafi varað Úkraínumenn tímanlega við um yfirvofandi innrás aðfaranótt 24. febrúar sem hafi gert Úkraínumönnum kleift að flytja flugvélar sínar frá hefðbundnum flugvöllum sínum. Að minnsta kosti tókst þeim að forða flugvélum sínum frá langdrægum rússneskum flugskeytum.
Eftir að stríðið hófst hafa Vesturlönd látið Úkraínumenn fá mikið af varahlutum í flugvélar og hafa þeir því getað haldið flugvélum sínum á lofti. Hafa fréttir borist af því að þeir séu raunar með fleiri flughæfar orustuþotur nú en fyrir stríð.