Úkraínska leyniþjónustan segist hafa heimildir fyrir þessu en hún skýrði frá þessu á vefsíðu sinni á mánudaginn. Þar segir að hin „svokölluðu yfirvöld á hinum hernumda Krímskaga og suðurhluta Úkraínu séu nú að flytja fjölskyldur sínar í skyndingu aftur yfir á rússneskt landsvæði“.
Fram kemur að meðlimir leyniþjónustunnar FSB, herforingjar og starfsfólk rússneska hernámsliðsins reyni að selja hús sín með leynd og flýja frá Krím.
Þetta gerist á sama tíma og yfirvöld á Krím hafa fullvissað íbúana um að það sé öruggt að vera þar. Þau hafa einnig lokað fyrir upplýsingaflæði um gagnsókn Úkraínumanna og hrakfarir rússneska hersins í Kharkiv.
Úkraínska leyniþjónustan segir að rússnesk yfirvöld hafi bannað að hús séu seld og keypt á Krím og hafi sett takmarkanir á ferðir fólks yfir Kertsjbrúnna sem tengir Krím við Krasnodar í Rússlandi. Hún var byggð eftir innlimun Krímskaga í rússneska ríkjasambandið.