Héraðssaksóknari hefur ákært 34 ára gamlan karlmann fyrir „sérstaklega hættulega líkamsárás.“ Í ákæru saksóknara sem DV hefur undir höndum er árásin sögð hafa átt sér stað þann 7. desember 2020 að Stórholti 26. Mun maðurinn hafa ráðist að 45 ára gömlum karlmanni og slegið hann ítrekað með glerflösku í andlitið þar til hún brotnaði.
Mun brotaþoli hafa hlotið alvarlega áverka af árásinni, þar á meðal sex skurði á höfði. Þurfti enn fremur að sauma andlit mannsins saman, að því er kemur fram í ákæru héraðssaksóknara.
Mál héraðssaksóknara verður þingfest á morgun í Héraðsdómi Reykjaness. Krefst saksóknari að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá gerir brotaþoli í málinu kröfu um greiðslu 1,5 milljóna í miskabætur.