Alls bárust lögreglunni tilkynningar um 125 nauðganir á fyrstu sex mánuðum ársins. En þetta nemur um 28 prósent aukningu frá því á síðasta ári. Að meðaltali er tilkynnt um 21 nauðgun á mánuði. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu ríkislögreglustjóra um kynferðisbrot.
Þar kemur eins fram að tilkynningum vegna kynferðislegrar áreitni og vegna brota á kynferðislegri friðhelgi hafi fjölgað mikið.
Í málaskrá lögreglunnar er bæði skráð hvenær brot eru tilkynnt og eins hvenær þau áttu sér stað. Í tilkynningu frá lögreglu segir að ástæða þess sé sú að oft líði tími á milli þess sem brot er framið og þess að það sé tilkynnt lögreglu.
Með tilliti til þess hvaða tíma brotið var framið á var tilkynnt um 83 nauðganir sem áttu sér stað fyrstu sex mánuði ársins, sem nemur um 14 nauðgunum á mánuði, eða með öðrum orðum var einstaklingi nauðgað hér á landi annan hvern dag fyrri hluta ársins.
„Þegar horft er til tíma brots, var tilkynnt um 83 nauðganir sem áttu sér stað fyrstu sex mánuði ársins eða 14 nauðganir á mánuði, sem samsvarar 1% fækkun frá því í fyrra. Þegar skoðuð er tímasetning nauðgana eftir árum og embættum um helgar þá á 66% þeirra sér stað á höfuðborgarsvæðinu og 65% þeirra frá 18:00-06:00 að morgni.“
Fjöldi tilkynninga hafi minnkað á meðan á sóttvarnartakmörkunum stóð vegna COVID-19 en frá því að takmörkunum var aflétt hefur tilkynntum nauðgunum aftur fjölgað. Í tilkynningu lögreglu segir:
„Vitundarvakning dómsmálaráðuneytisins, Neyðarlínunnar, ríkislögreglustjóra, lögreglunnar og fjölda annarra samstarfsaðila undir slagorðunum „Verum vakandi“ og „Góða skemmtun“ sem hófst í mars og lauk nú um miðjan ágúst var því beint sérstaklega að skemmtanalífinu og viðburðum með það tvíþætta markmið að fækka brotum og fjölga tilkynningum til lögreglunnar.“
Á fyrstu sex mánuðum ársins verið skráðar 328 tilkynningar vegna kynferðisbrota. Hefur þar blygðunarsemisbrotum og kynferðisbrotum gegn börnum fækkað en tilkynntum brotum vegna kynferðislegrar áreitni og brot gegn kynferðislegri friðhelgi hafi fjölgað.
„ Ef borið er saman við fyrstu sex mánuði ársins 2021 fækkar í heildina skráðum kynferðisbrotum um 9% á milli ára. Skráðum blygðunarsemisbrotum og kynferðisbrotum gegn börnum fækkar. Brot vegna kynferðislegrar áreitni og brot gegn kynferðislegri friðhelgi heldur hins vegar áfram að fjölga, og voru 64 á tímabilinu. Til samanburðar var tilkynnt um 36 brot að jafnaði síðustu þrjú ár þar á undan, eða aukning um 78%.“
Meðalaldur meintra gerenda er 35 ár og eru 95 prósent þeirra karlmenn og þar af 22 prósent undir 25 ára aldri.
Meðalaldur grunaðra er 35 ár og var 95% þeirra karlar, þar af 33% undir 25 ára.
Lögregla hefur eins birt skýrslu hvað varðar heimilisofbeldi, en þar kemur fram að fjöldi tilkynninga hafi aldrei verið meiri og berast að meðaltali um sjö tilkynningar á dag um heimilisofbeldi eða ágreining milli skyldra/tengdra aðila.
Fékk lögregla á landsvísu 1232 tilkynningar um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra/tengdra aðila á fyrstu sex mánuðum ársins, eða um 205 tilkynningar á mánuði.
Í tilkynningu lögreglu segir:
„Um er að ræða tæplega 13% aukningu samanborið við síðustu þrjú ár þar á undan. Þegar eingöngu er litið til heimilisofbeldismála, þ.e. tilvika þar sem grunur er um brot á borð við líkamsárásir, hótanir eða eignaspjöll, þá eru tilvikin 592 eða 3% fleiri en á sama tíma 2021 og tæplega 2% fleiri en árið 2020 í miðjum heimsfaraldri. Tilkynningum um ágreining milli skyldra/tengdra aðila voru 640 talsins, og hafa þær ekki verið fleiri.
Heimilisofbeldismál eru nú orðin meira en helmingur líkamsmeiðinga og manndrápsmála sem koma á borð lögreglunnar. (Árið 2020 voru manndráp/líkamsmeiðingamál 1776, heimilisofbeldismál voru 1050, eða 59% málanna)“
Þolendakönnun lögreglunnar undanfarin ár hafi sýnt að um 7 prósent svarenda hafi orðið fyrir heimilisofbeldi og um 7-20 prósent tilkynnt til lögreglunnar. Stefnt er að því að reyna að fækka brotum en á sama tíma að fjölga tilvikum þar sem þolendur tilkynni brotin til lögreglu. Í tilkynningu segir:
„Í þeim tilgangi hefur lögreglan sett sér skýrt verklag um meðferð og skráningu heimilisofbeldismála og sinnt útköllum í samvinnu við félagsþjónustu og barnavernd sveitarfélaganna. Þá hefur ofbeldisgáttin 112.is frætt um birtingarmyndir heimilisofbeldis, þau úrræði sem eru til staðar og staðið fyrir vitundarvakningu um mikilvægi þess að tilkynna til 112 hjá Neyðarlínunni.“
Flest tilvik heimilisofbeldis, eða um tvö af hverjum þremur málum, séu af hendi maka eða fyrrverandi maka. Þó hafi málum fækkað þar sem um fyrrverandi maka er að ræða. Færri beiðnir hafi eins borist um nálgunarbann samanborið við síðustu ár, eða um 23 prósent fækkun slíkra tilvika.
Hins vegar hafi fjölgað málum þar sem um er að ræða fjölskyldutengsl svo sem ofbeldi á milli barna og foreldra og „eru tæplega 32% heimilisofbeldismála. Skráningin er óháð því hvort barnið sé undir lögaldri eða ekki.“
Í þessum málum sá árásaraðilinn í 78,6 prósent tilvika karlmaður og í 68,1 prósent tilvika er brotaþoli kona. Þegar horft er á heimilisofbeldi milli maka eða fyrrum maka séu karlmenn í 80,1 prósent tilvika árásaraðilar og konur brotaþolar í 77,1 prósent tilvika.