Bráðabirgðaniðurstöður DNA greininga á þrjátíu og tveimur löxum sem Fiskistofa veiddi í Mjólká í Arnarfirði í ágúst síðastliðnum sýna að helmingur laxanna, sextán alls, reyndust vera eldislaxar. Hinir laxarnir voru villtir. Í tilkynningu frá Matvælastofnun kemur fram að vísbendingar séu um að eldislaxarnir séu frá Haganesi í Arnarfirði en gat kom á kví hjá fyrirtækinu Arnarlaxi á því eldissvæði í ágúst í fyrra. Umrætt gat uppgötvaðist við neðansjávareftirlit og barst tilkynning til Matvælastofnun þann 30. ágúst. Neðansjávareftirlit hafði farið fram rúmum mánuði fyrr, þann 31. júlí, og var þá nótapokinn heill.
Í samráði við Fiskistofu lagði Arnarlax út net til að kanna hvort strok hefði átt sér stað en aðeins einn lax, um 1,3 kíló, veiddist. Eftir DNA greiningu var hægt að staðfesta að sá lax hefði sannarlega komið úr þeirri kví sem skemmdist.
Sá fyrirvari er þó sleginn að endurkeyra þurfi DNA-greininguna til að staðfesta bráðabirgðaniðurstöðurnar og í framhaldi af því verður hægt að rekja uppruna eldislaxanna.