fbpx
Föstudagur 10.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Skammt stórra högga á milli

Eyjan
Sunnudaginn 11. september 2022 15:44

Sendimenn ríkisins bera Cincinnatusi þá fregn að hann hafi verið útnefndur alræðismaður.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vart hef ég fyrirhitt þann mann sem ekki telur sig vera lýðræðissinna; með öðrum orðum þann sem aðhyllist það stjórnarfyrirkomulag að þjóðarvilji ráði för og Rómverjar hinir fornu kölluðu democratia. Andstæða þess er einræði eða dictatura. Þegar hætta steðjaði að Rómarveldi á lýðveldistímanum var stundum kjörinn alræðismaður eða dictator (nafn hans er dregið af latnesku sögninni dictari sem merkir að skipa fyrir eða bjóða). Það var allra helst á styrjaldartímum að talið var nauðsynlegt að velja alræðismann en hann var þó aldrei skipaður lengur en til sex mánaða senn.

Árið 458 fyrir Kristburð var Lucius Quinctius Cincinnatus kjörinn alræðismaður. Sendimenn ríkisins fluttu honum þann boðskap að honum hefði verið falin stjórn rómverska hersins á viðsjárverðum tímum. Þeir hittu Cincinnatus fyrir þar sem hann var að yrkja akur sinn. Hann tókst þegar á hendur hina borgaralegu skyldu við herstjórnina, safnaði saman öllum vopnfærum mönnum, réðst til atlögu við óvininn og bar sigurorð. Að ætlunarverki loknu — sextán dögum síðar — hélt hann aftur í heimahagana, að yrkja jörðina þar sem frá var horfið.

Einræðinu á lýðveldistímanum var aðeins markað stutt skeið þegar illa horfði því Rómverjar óttuðust að alræðismennirnir kynnu að gerast einvaldir til langframa yrði embættistíminn lengri. Öldum síðar fór þetta á annan veg og á keisaratímanum sátu að völdum hinir verstu harðstjórar sem sumir hverjir virtu hin settu lög einskis — en það er önnur saga.

Cincinnatus í Westminster?

Fyrrverandi forsætisráðherra Breta, Boris Johnson, er klassískt menntaður og kvaðst í kveðjuræðu sinni á þriðjudaginn var myndu hverfa aftur til arðsins (e. „returned to his plough“) í þeirri merkingu að hann tæki sér nú sæti á aftari bekkjum neðri málstofunnar í Westminster. Kunnáttumenn í Rómarsögu nefndu undireins að Johnson léti þess ógetið í vísun sinni til Cincinnatusar að hann sneri síðar aftur á stól alræðismanns. Johnson gæfi í skyn að hann eygði endurkomu.

Sumir fornfræðingar og sérfræðingar í sögu Rómarveldis bentu á að þessi samanburður væri Johnson ekki endilega hagfelldur. Cincinnatus hefði umfram allt notið hylli Rómverja því honum þóknaðist ekki að halda lengur um valdataumana en þörf krefði. Á móti segja margir að Johnson hafi hangið á forsætisráðherrastólnum löngu eftir að hann hafi séð sæng sína uppreidda. Ærin tilefni hafi gefist til afsagnar fyrr.

Drottningin öll

Johnson gekk á fund drottningar í Balmoralkastala á þriðjudaginn var og sagði formlega af sér sem forsætisráðherra. Nafna drottningar, Mary Elizabeth Truss, sótti umboðið til hennar hátignar í kjölfarið. Tveimur dögum síðar var drottningin öll. Í ræðu í neðri málstofu breska þingsins í gær minntist Johnson þessa síðasta fundar þeirra drottningar og sagði hana þar hafa verið jafn geislandi af fróðleiksfýsi og heillaða af stjórnmálunum og hún hefði ætíð verið á þeirra fyrri fundum.

Það segir sitt um ágæti breskrar kímnigáfu að Johnson leyfðist að gantast örlítið við þetta tilefni er hann minntist drottningar og rifjaði upp atriði á setningarhátíð Ólympíuleikanna í Lundúnum fyrir áratug þegar leikari í gervi hennar hátignar stökk úr þyrlu yfir leikvanginum. Leiðtogi ríkis í Mið-Austurlöndum taldi að þarna svifi sjálf Elísabet II. Það fylgdi með sögunni að hennar hátign var skemmt við frásögn af þessum misskilningi.

Farsæl saga

Handan hafsins héldu kristilegir demókratar í Þýskalandi landsfund í Hannover þegar tilkynnt var um andlát Englandsdrottningar. Minntust landsfundargestir hennar með einnar mínútu þögn. Leiðtogi flokksins, Friedrich Merz, nefndi í ræðu af því tilefni að Hannoverborg væri táknræn fyrir hin traustu bönd milli landanna (þ. „die enge Verflechtung zwischen unseren Ländern“). Forfeður drottningarinnar sálugu voru þýskrar ættar en erfðareglur Stóra-Bretlands og hertogadæmisins Brunschweig-Lüneburg (síðar konungsríkisins Hannover) gerðu það að verkum að sami maður var þjóðhöfðingi þessara tveggja ríkja á árunum 1714–1837 eða allt til þess tíma er Viktoría var krýnd Englandsdrottning (erfðareglur Hannover leyfðu ekki að kona yrði þjóðhöfðingi).

Konungsríkið Hannover er löngu horfið líkt og flest öll konungsríki álfunnar. Englendingum hefur sögulega tekist betur til um margt en þjóðum meginlandsins. Allt frá því að Vilhjálmur bastarður hélt yfir sundið 1066 hefur ríkisvald, lög og réttur þróast í takti við nýja tíma og að mestu án byltinga og blóðsúthellinga á síðari öldum. Snemma voru valdi konungs settar skorður, þingræði á uppruna sinn í Bretlandi og óvíða á byggðu bóli stendur lýðræði traustari fótum.

Fyrir rúmri öld féllu langflest erfðaveldi álfunnar í kjölfar ófriðarins mikla, en innan Þýska keisaradæmisins voru hvorki meira né minna en 22 konungsríki, hertoga- og furstadæmi fram til 1918. Meðal þeirra sem hurfu þá frá völdum voru tveir náfrændur Georgs V, afa Elísabetar sálugu, þeir Vilhjálmur II Þýskalandskeisari og Nikulás II Rússakeisari. Hinn fyrrnefndi hélt í útlegð til Hollands sá síðarnefndi var myrtur köldu blóði af bolsévikum ásamt fjölskyldu sinni.

Nú er þetta ekki annað en leiftur úr fjarlægri fortíð en í sögulegu ljósi er það á ýmsan hátt táknmynd farsælla stjórnarhátta að rúmri öld frá endalokum fyrrnefnds hildarleiks skuli langafabarn Georgs V sitja að völdum sem þjóðhöfðingi alls fimmtán ríkja vítt og breytt um heiminn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Tímabært að gera upp við landsdómsmálið

Björn Jón skrifar: Tímabært að gera upp við landsdómsmálið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Happdrættisvinningur

Óttar Guðmundsson skrifar: Happdrættisvinningur
EyjanFastir pennar
08.12.2024

Björn Jón skrifar: Af valkyrjum

Björn Jón skrifar: Af valkyrjum
EyjanFastir pennar
07.12.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Furðulegt kosningakerfi

Óttar Guðmundsson skrifar: Furðulegt kosningakerfi
EyjanFastir pennar
28.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
27.11.2024

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
21.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka
EyjanFastir pennar
19.11.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?