Samúel Kári Friðjónsson átti góða innkomu með Atromitos í Grikklandi í dag sem mætti Ionikos í efstu deild.
Samúel kom inná sem varamaður á 46. mínútu og skoraði ekki löngu seinna annað mark Atromitos.
Staðan var 1-0 fyrir Ionikos er Samúel kom inná en Atromitos átti eftir að bæta við fjórum mörkum í 4-1 sigri. Viðar Örn Kjartansson var í byrjunarliðinu en fór af velli í hálfleik.
Einnig í Grikklandi lék Guðmundur Þórarinsson 77 mínútur með OFI Crete sem tapaði 2-1 heima gegn Panaitolikos.
Það fór fram Íslendingaslagur í efstu deild í Danmörku þar sem OB vann 2-1 sigur á FC Kaupmannahöfn.
Hákon Arnar Haraldsson var í byrjunarliði FCK í tapinu og kom Orri Steinn Óskarsson inná seint í síðari hálfleik. Aron Elís Þrándarson kom inná hjá OB í uppbótartíma en Ísak Bergmann Jóhannesson kom ekkert við sögu hjá FCK.
Í Allsvenskunni lék Aron Bjarnason með Sirius sem þurfti að sætta sig við 3-2 heimatap gegn Varnamo.
Hólmbert Aron Friðjónsson spilaði 15 mínútur fyrir Lilleström í Noregi sem vann 2-1 heimasigur á Stromsgodset.
Í Belgíu byrjaði Jón Dagur Þorsteinsson fyrir OH Leuven sem vann Charleroi í efstu deild þar í landi. Jón Dagur spilaði 61 mínútu í 3-2 sigri.