Heung Min Son, leikmaður Tottenham, hefur ekki miklar áhyggjur af eigin markaþurrð en lítið hefur gengið upp á þessu tímabili.
Son er einn allra hættulegasti sóknarmaður ensku úrvalsdeildarinnar en hefur enn ekki skorað í fyrstu sjö leikjum deildarinnar.
Son viðurkennir að hann verði örlítið pirraður er hann klikkar á dauðafærum en getur í kjölfarið hlegið.
Sóknarmaðurinn átti sitt besta tímabil á síðustu leiktíð er hann skoraði 23 mörk í deildinni og var markahæstur ásamt Mohamed Salah.
,,Í sumum leikjum þá verð ég pirraður því ég fæ frábær tækifæri en boltinn fer ekki inn og það fær mig til að hlæja,“ sagði Son.
,,Ég er hins vegar ekki áhyggjufullur því allir í kringum mig eru að hjálpa. Ef ég skora mark þá mun sjálfstraustið koma aftur og ég vona að fleiri mörk fylgi.“