Kylian Mbappe er betri leikmaður en Erling Haaland að sögn Thierry Henry sem er goðsögn hjá bæði franska landsliðinu sem og Arsenal.
Haaland hefur byrjað tímabilið stórkostlega með Manchester City eftir að hafa komið til félagsins frá Borussia Dortmund í sumar.
Mbappe er þá nafn sem flestir kannast við en hann leikur með Paris Saint-Germain og er talinn einn besti sóknarmaður heims.
Henry er á því máli að Mbappe sé öflugra vopn en Haaland í sókninni þar sem hann getur boðið upp á meira þegar þess þarf.
,,Mbappe getur skapað færi og klárað þau. Haaland býr ekkert til, hann klárar færin,“ sagði Henry.
,,Mbappe getur spilað hægra megin og vinstra megin sem og fyrir miðju, Haaland getur bara spilað fyrir miðju.“
,,Hann er frábær leikmaður og með hann í sínum röðum hefðu þeir getað unnið Meistaradeildina á síðustu leiktíð. Að mínu mati er hins vegar Mbappe enn á undan honum.“