Elísabet II Bretadrottning er látin, 96 ára að aldri. Enginn þjóðhöfðingi Breta hefur setið lengur á valdastól en í ár eru 70 ár liðin frá krýningu hennar. Mikil sorg ríkir í Bretlandi enda var drottningin með afbrigðum vinsæl og elskuð af þegnum sínum.
Elísabet er fædd þann 21. apríl 1926. Hún tók formlega við krúnunni árið 1953, þá 26 ára gömul, eftir andlát föður síns, Georg VI, árinu áður. Hann dó nokkuð snögglega úr lungnakrabbameini, aðeins 56 ára að aldri.
Georg VI hafði þó aldrei verið ætluð konungstignin heldur eldri bróður hans, Eðvarð VIII. Hann sagði þó af sér konungstign, eins og frægt er orðið, árið 1936, til að kvænast hinni bandarísku og tvífráskildu Wallis Simpson. Tók Georg VI þá við krúnunni og var hin tíu ára Elísabet þar með orðin krúnuerfingi. Móðir Elísabetu var Elísabet drottningarmóðir, sem líkt og dóttir hennar var elskuð og dáð af bresku þjóðinni. Drottningarmóðirin lést 101 árs gömul árið 2002. Sama ár lést eina systkini Elísabetar drottningar, Margrét prinsessa, fædd árið 1930.
Elísabet kynntist, Filip prins af Grikklandi og Danmörku, aðeins 13 ára að aldri en þau voru fjarskyldir ættingjar. Mun hún síðar hafa trúað nánum vinum fyrir að um ást við fyrstu sýn hefði verið að ræða.
Þau gengu í hjónaband árið 1947 en það gekk þó ekki þrautalaust þar sem Filip var auralaus útlendingur. Í honum rann þýskt blóð í föðurætt auk þess sem allar systur hans höfðu gifst meðlimum nasistaflokks Þýskalands sem þótti afar óheppilegt rétt eftir stríð.
Filip sagði af sér öllum titlum og tók upp breskt eftirnafn móðurafa síns, Mountbatten, og þótti hjónaband þeirra afar ástríkt. Þau eignuðust fjögur börn, Karl prins, fæddur 1948, Önnu prinsessu, fædd 1950, Andrés prins, fæddur 1960 og Eðvarð prins, fæddur 1964. Filip drottningarmaður lést í fyrra, 99 ára að aldri.
Hér eru nokkrar svipmyndir frá stórum stundum í valdtíð Elísabetar drottningar