Þeir Mikael Nikulásson og Kristján Óli Sigurðsson voru harðorðir í garð íslenska kvennalandsliðsins fyrir frammistöðu þess í 1-0 tapi gegn Hollandi í lokaleik undanriðils HM 2023 í fyrradag.
Ísland gat með jafntefli eða sigri tryggt sér beint sæti á HM. Vegna tapsins þarf liðið þó að fara í umspil.
Holland var miklu betri aðilinn í fyrri hálfleik og ótrúlegt að liðið hafi ekki komist yfir. Seinni hálfleikur var þó töluvert skárri hjá íslenska liðinu. Hollendingar skoruðu hins vegar sigurmarkið í blálokin.
„Fyrri hálfleikurinn í gær er eitthvað það lélegasta sem ég hef nokkurn tímann séð. Ég spyr: Hvað var leikplanið hjá Íslandi í gær? Glódís er í Bayern, Sara er í Juventus, Dagný er í West Ham, Berglind Björg er í PSG, Sveindís er í Wolfsburg. Það eru engar afsakanir,“ segir Mikael í Þungavigtinni. „Ég sá aldrei þrjár sendingar á milli manna.“
Kristján tók í svipaðan streng. „Það var ekkert leikplan. Hann var að hanga á þessu núlli eins lengi og mögulegt var og að það hafi verið 0-0 í hálfleik, fótboltaguðirnir voru drottnandi yfir Utrecht. Þetta var ömurleg frammistaða. Það er alltaf talað um að það megi ekki gagnrýna hina og þessa, en það má gagnrýna.“
Hann skýtur þá á Þorstein Halldórsson landsliðsþjálfara fyrir að nota ekki Amöndu Andradóttur í leiknum.
„Hann sagði að hann ætlaði að eiga Amöndu inni. Í hvað ætlaði hann að eiga hana inni? Jólahlaðborð í desember?“
Kristján skaut einnig á KSÍ og Vöndu Sigurgeirsdóttir, formann sambandsins, vegna þess hversu langan samning Þorsteinn , fékk fyrir lokakeppni EM í sumar.
„Ég velti fyrir mér hvort þetta vantraust sem Steini fær frá Vöndu, að gefa honum aðeins samning til 2026, hvort hann hefði ekki átt að fá fjögur ár í viðbót, til 2030 og fá vinnufrið,“ segir kaldhæðinn Kristján.