Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, skýrði frá þessu á Twitter í nótt.
„Rússar hafa afhent lík breska hjálparstarfsmannsins Paul Urey sem þeir tóku höndum í apríl og sögðu síðar að hefði látist af völdum „sjúkdóms“ og „stress“ í júlí. Líkið ber merki óhugnanlegra pyntinga,“ segir í færslu ráðherrans.
Russians have returned the body of a British humanitarian worker Paul Urie whom they captured in April and reported dead due to “illnesses” and “stress” in July. With signs of possible unspeakable torture. Detaining and torturing civilians is barbarism and a heinous war crime 1/2
— Dmytro Kuleba (@DmytroKuleba) September 7, 2022
Urey var handtekinn ásamt öðrum breskum hjálparstarfsmanni, Dylan Healy, í apríl við rússneska varðstöð. Þeir voru þá að reyna að koma móður og tveimur börnum hennar frá þorpi nærri Zaporizjzja að sögn The Guardian.
Þeir voru sakaðir um að vera málaliðar á vegum Úkraínu. Í maí birtist Urey síðan skyndilega í rússnesku sjónvarpi. Hann var handjárnaður og gagnrýndi umfjöllun breskra fjölmiðla um stríðið. Eftir það heyrðist ekkert frá honum.
Það var síðan 15. júlí sem Tass fréttastofan skýrði frá andláti hans. Var hann sagður hafa látist af völdum „sjúkdóms og stress“ fimm dögum áður.
Kuleba sagði Urey vera „hugrakkan mann“ og sendi fjölskyldu hans og vinum samúðarkveðjur. „Hann var hugrakkur maður sem helgaði líf sitt að bjarga öðrum. Úkraína mun aldrei gleyma honum né því sem hann gerði,“ skrifaði hann og bætti við að Úkraínumenn muni finna þá sem bera ábyrgð á dauða hans og „draga þá til ábyrgðar“.