Markvörðurinn Bernd Leno yfirgaf Arsenal fyrir Fulham í sumar. Þjóðverjinn var orðinn varamarkvörður hjá Skyttunum í kjölfar komu Aaron Ramsdale fyrir ári síðan.
Nú hefur Leno skotið á sitt fyrrum félag í viðtali við BILD í heimalandinu.
„Þegar ég áttaði mig á því að þetta snerist ekki um frammistöðu eða gæði vissi ég að ég þyrfti að fara,“ segir Leno.
„Þetta snerist bara um pólitík, það var mér alveg ljóst. Ég þurfti að komast þaðan.“
Leno segist nú stefna á að koma sér aftur nær þýska landsliðinu. Heimsmeistaramótið í Katar hefst í nóvember.
„Það mikilvægasta fyrir mig er að finna taktinn aftur, sérstaklega þar sem ég gat ekki æft almennilega eða undirbúið mig. Það er undir mér komið að komast aftur í landsliðið,“ segir Bernd Leno.