Tveir ökumenn voru handteknir í nótt grunaðir um að vera undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.
Um klukkan hálf tvö í nótt var tilkynnt um yfirstandandi innbrot í fyrirtæki í austurhluta höfuðborgarsvæðisins. Innbrotsþjófurinn fannst skammt frá vettvangi og var hann með þýfið meðferðis. Hann var handtekinn og vistaður í fangageymslu.
Ökumaður reyndi að stinga lögregluna af á öðrum tímanum í nótt eftir að hraði bifreiðarinnar, sem hann ók, mældist 135 km/klst þar sem leyfður hámarkshraði er 80 km/klst. Lögreglan náði að stöðva akstur hans eftir stutta eftirför og var ökumaðurinn handtekinn. Hann er grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna og vörslu ávana- og fíkniefna.
Eldur kom upp í bifreið á austurhluta varðsvæðisins í nótt. Slökkvistarf gekk greiðlega. Ekki er vitað um eldsupptök.
Í Miðborginni var maður handtekinn á fjórða tímanum í nótt því hann lét öllum illum látum við húsnæði og sparkaði í hurðir og glugga. Hann var vistaður í fangageymslu.
Á fjórða tímanum var tilkynnt um mann með eggvopn utan við hús í austurborginni. Lögreglan fór strax á vettvang en maðurinn fannst ekki þrátt fyrir leit.