Wilfried Zaha, stjörnuleikmaður Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni, grínaðist með það á dögunum að Patrick Vieira, stjóra liðsins, hefði ekkert ráðið við hann er hann var leikmaður.
Vieira er goðsögn hjá Arsenal en hann var frábær á miðju liðsins á leikmannaferli sínum.
„Auðvitað er ég ekki sammála honum,“ sagði Vieira um ummæli Zaha og hló.
„Það hefði verið mjög auðvelt að stoppa hann. Honum þætti aðdáunarvert hversu góður ég var, hversu sterkur. Hann hefði orðið hræddur og fært sig á hinn helming vallarins.“
Palace er í þrettánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar, með fimm stig eftir fimm leiki.
Liðið hefur tekið miklum breytingum frá því Vieira tók við fyrir síðustu leiktíð. Það er talið spila léttleikandi og skemmtilegan fótbolta.