Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Gunnari Herði Garðarssyni, samskiptastjóra hjá ríkislögreglustjóra, að að í heildina þurfi 50 til 75 nýja lögreglumenn og að niðurstaðan velti svolítið á breytingum á vaktakerfum.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, sagði að styttingin kalli á mikla endurskipulagningu. „Breytingin eykur þörf á fleiri menntuðum lögreglumönnum. Það á að vera okkar aðalkeppikefli að fjölga menntuðum lögreglumönnum sem mest. Við höfum náð að bregðast við í bili en það þarf augljóslega að bæta enn frekar í,“ sagði hún.
Meðal afleiðinga af styttingu vinnuvikunnar er að ófaglærðir standa nú fleiri vaktir en áður og á það ekki síst við um helgar. Er hlutfall ófaglærðra hærra úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu að sögn embættis ríkislögreglustjóra.
Í haust var lögreglunemum fjölgað úr 40 í 80 en það dugir ekki til að sögn ríkislögreglustjóra.