Arsenal hefur enn áhuga á Youri Tielemans, miðjumanni Leicester. Sky Sports segir frá.
Tielemans hefur verið orðaður við Arsenal töluvert í sumar. Félagið hefur ekki boðið í hann nýlega en er talið hafa boðið of litla fjárhæð í hann fyrr í sumar.
Líklegasta niðurstaðan er að belgíski miðjumaðurinn verði áfram hjá Leicester á þessari leiktíð.
Tielemans á þó aðeins eitt ár eftir af samningi sínum. Er Leicester talið tilbúið að selja hann ef tilboð upp á 25 milljónir punda berst. Leikmaðurinn gæti annars farið frítt næsta sumar.
Arsenal er í vandræðum á miðsvæðinu þessi misserin. Thomas Partey er meiddur og einnig Mohamed Elneny. Tielemans gæti því leyst vandræðin.
Arsenal taka á móti Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Skytturnar eru á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir fjóra leiki.