BBC skýrir frá þessu. Ástæðan fyrir hærri gjöldum er að sundlaugar, við íbúðarhús, hækka fasteignamat og þar með fasteignaskatta.
Til að finna sundlaugarnar var notast við hugbúnað sem Google og franska ráðgjafafyrirtækið Capgemini hönnuðu. Hugbúnaðurinn fann síðan sundlaugar á loftmyndum af níu héruðum landsins þegar tilraun var gerð með hann í október 2021. Yfirvöld segja að líklega verði hugbúnaðurinn notaður til að fara yfir loftmyndir af öðrum héruðum landsins.
Árið 2020 voru rúmlega 3,2 milljónir einkasundlauga skráðar í Frakklandi en samhliða heimsfaraldri kórónuveirunnar jókst sala á sundlaugum því fólk vildi greinilega komast í sundlaug þegar það var að vinna heima.
Skattyfirvöld segja að hugsanlega verði einnig hægt að nota hugbúnaðinn til að finna óskráðar viðbyggingar, sólpalla og garðskála. Greiða þarf fasteignaskatta af slíku.