Luciano Spalletti, stjóri Napoli, hefur tjáð sig eftir mjög athyglisvert atvik sem átti sér stað í leik gegn Fiorentina á sunnudag.
Spalletti sást þar ræða við stuðningsmenn mótherjana í 0-0 jafntefli en hann var gríðarlega óánægður með þau köll sem hann fékk að heyra í leiknum.
Stuðningsmenn Fiorentina töluðu látlaust um móður Spalletti sem hann samþykkti ekki og tók málið í sínar hendur.
,,Eigum við að tala um dónaskapinn í stuðningsmönnum Fiorentina fyrir aftan varamannabekkinn?“ sagði Spalletti við DAZN.
,,Þar eru sumir sem móðga þig alveg frá byrjun leiks og þar til honum lýkur. Það eru börn sitjandi við hliðina á þeim og ég get ekki einu sinni farið með það sem þau sögðu.“
,,Þau byrja að móðga móður þína stanslaust, móðir mín er níræð, látið hana í friði. Þetta eru atvinnu hrekkjusvín.“