Magnús Aron Magnússon, sem sakaður er um að hafa orðið nágranna sínum í Barðavogi, Gylfa Bergmanni Heimissyni að bana fyrir utan heimili þeirra neitaði sök við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Frá þessu greinir Vísir.
Þinghald í málinu verður opið, en verjandi Magnúsar fór fram á lokað þinghald sem saksóknari og lögmaður fjölskyldu Gylfa mótmæltu.
Vísir greinir frá því að Magnús hafi verið leiddur inn í dómsal í járnum klukkan 15 í dag, en hann hefur verið ákærður fyrir að hafa orðið Gylfa að bana laugardaginn 4. júní fyrir utan heimili þeirra í Barðavogi. Sagt er í ákæru að Magnús hafi veist að Gylfa með ofbeldi inni á stigagangi hússins og átökin svo færst út. Er Magnús sakaður um að hafa sparkað í Gylfa og kýlt hann, fellt hann niður og svo stappað á andliti hans og brjóstkassa. Offorsið hafi verið slíkt að Gylfi hafi margbrotnað á kjálka, hlotið brot á nefbeini, kinnbeini og tungubeini auk þess að hafa marist víða um líkamann og hlotið blæðingar. Áverkarnir hafi verið slíkir að Gylfi hafi átt erfitt með að anda og í kjölfarið látist á vettvangi meðal annars með mar á heila.
Eins og áður segir neitar Magnús sök í málinu en verjandi hans segir að Magnús líti svo á að andlát Gylfa hafi borið að í átökum og að lýsingar í ákæru séu rangar.
Níu gera bótakröfu í málinu. Fjögur börn Gylfa, fjögur systkini hans og eitt foreldri. Magnús viðurkennir bótakröfu barna og foreldris en hafnar bótakröfum systkina.
Enn er verið að framkvæma sakhæfismat á Magnúsi.
Magnús hefur áður verið sakfelldur fyrir ofbeldi og brot á barnaverndarlögum, en árið 2020 var hann fundist sekur um að hafa veist að ungum dreng árið 2019 með ofbeldi, yfirgangi og vanvirðandi háttsemi. Þá var Magnús tæplega 18 ára að aldri. Var hann dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi og var því enn á skilorði nú í júní er Gylfi lét lífið.
Árið 2019 var hann handtekinn vegna ofbeldisfullrar hegðunar í garð mótmælenda á Austurvelli sem þá lýstu stuðningi við flóttamenn. Eins hefur Magnús ratað í fréttir fyrir ofbeldi gegn hundum í Langholtshverfi.