„Margar tegundir fugla eru á válista Náttúrufræðistofnunar og þar á meðal nokkrar tegundir máva. Hvítmávar eru í hættu, dvergmávar eru í nokkurri hættu og í yfirvofandi hættu eru silfurmávar. Eins fer nokkrum stofnum máva hnignandi því þeir eru drepnir vegna meints tjóns,“ skrifar Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, á Facebooksíðu sína þar sem hún deilir ennfremur frétt um að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi lagt fram tillögu um að gripið verði til aðgerða gegn vargfugli í Reykjavík.
Í fréttinni á RUV segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, að tillögurnar feli meðal annars i að skjóta mávinn. „Sumir nota þá samlíkingu að mávurinn sé eins og fljúgandi rotta. Ég vill ekki taka svo sterkt til orða, en ég skil þá líkingu vel þegar maður sér hann innan um endurnar og andarungana hér við tjörnina,“ segir hann.
Líf segir að nú hafi Sjálfstæðismenn í Reykjavík lýst yfir stríði við máva og ætli að leita leiða til að fækka þeim með því að drepa þá og ungana þeirra.
„Hvað gefur þeim skilgreiningarvaldið á því hvort mávar séu meiri pest en aðrir fuglar og önnur dýr? Hafa þeir ekki kynnt sér stefnu Reykjavíkurborgar um líffræðilega fjölbreytni? Og eins má spyrja sig hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft samráð við Náttúrufræðisstofnun Íslands eða Gunnar Þór Hallgrímsson hjá HÍ sem hefur rannsakað sílamáva manna mest en það er sú tegund sem er hvað mest í þéttbýli,“ segir hún.
Líf hvetur síðan kjörna fulltrúa til að kolfella þessa tillögu Sjálfstæðismanna. „Það er sorglegt að tegundum lífvera fækki í heiminum og séu að hverfa en sorglegast er þegar misviturt mannfólk ætlar að sjá til þess að það gerist hraðar en ella, með athöfnum sínum og tómlæti gagnvart hinum lifandi heimi og náttúru,“ segir hún.