Alexandra Jóhannsdóttir landsliðskona er brött fyrir leikinn mikilvæga gegn Hvíta-Rússlandi á Laugardalsvelli á föstudag. Leikurinn er liður í undankeppni HM á næsta ári, en Ísland er í mikilli baráttu um á að komast beint á mótið.
Sem stendur er Ísland í öðru sæti undanriðilsins, tveimur stigum á eftir Hollandi. Stelpurnar okkar eiga þó eftir að leika tvo leiki en Holland aðeins einn, hann er einmitt gegn Íslandi.
Sigri Ísland gegn Hvíta-Rússlandi er liðið með pálmann í höndunum upp á að komast beint á lokakeppni HM fyrir leikinn gegn Hollandi ytra. Liðið sem hafnar í öðru sæti riðilsins fer í umspil.
„Þetta leggst bara vel í mig. Það æfðu einhverjar í gær og nokkrar voru í endurheimt. Við erum komnar með fulla einbeitingu á leikinn núna,“ segir Alexandra við 433.is á landsliðsæfingu í dag.
Liðið er með fulla einbeitingu á leikinn gegn Hvít-Rússum, þó úrslitaleikur gegn Hollandi sé framundan.
„Við gerum okkur grein fyrir því að við verðum að vinna leikinn á föstudaginn. Við erum í bullandi baráttu um að komast beint á HM, sem er staða sem við viljum vera í.“
Hún vill sjá góða stemningu á Laugardalsvelli á föstudag. „Ég hvet alla til að mæta á völlinn. Það munar um tólfta manninn.“
Alexandra gekk á dögunum í raðir stórliðs Fiorentina á Ítalíu. Hún var áður hjá Frankfurt. Hún lék sínar fyrstu mínútur með ítalska liðinu 1-3 sigri gegn AC Milan á sunnudag.
„Ég er ekki búin að fara á nema eina æfingu með liðinu. Það var gaman að fá að koma inn á og fá fyrstu mínúturnar. Þetta leggst mjög vel í mig, ég er mjög spennt.“
Af hverju varð Fiorentina fyrir valinu? „Ítalska deildin heillaði mig, deild á uppleið. Þjálfarinn (Patrizia Panico) heillaði mig líka, hvernig hún spilar leikinn. Svo heillaði Flórens alveg, það er ekki leiðinlegt að búa þar.“